Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Þór á Akureyri í dag í Mjólkurbikarnum. Þórsarar eru í Lengjudeildinni en KF er í 2. deild en töluverður getumunur er á þessum liðum í dag. KF stillti upp sterku liði en það vantar þó ennþá nokkra leikmenn sem eru í meiðslum og fá því yngri leikmenn tækifæri á meðan. Leikurinn fór fram í Boganum á Akureyri.

Alexander Már Þorláksson fyrrum leikmaður KF  skoraði fyrsta mark leiksins á 38.mínútu og kom Þór í 1-0. Aðeins nokkrum síðar tvöfaldaði Marc Rochester Sorensen forystuna eftir góða sókn og staðan í leikhléi 2-0.

Þórsarar fengu fjölmörg dauðafæri í síðari háfleik og lauk leiknum með 6-0 sigri þar sem Marc Rochester gerði sitt annað mark og Valdimar Daði Sævarsson, Bjarni Guðjón Brynjólfsson og Aron Ingi Magnússon gerðu einnig eitt mark.

Sigur Þórsara síst of stór og eru þeir komnir áfram í pottinn í Mjólkurbikarnum.

KF hefur leik í 2. deildinni eftir einn mánuð.