Byggðarráð Skagafjarðar fagnar framkominni þingsályktunartillögu um að innviðaráðherra verði falið að hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga.

Sveitarfélagið Skagafjörður og Akureyrarbær hafa á undanförnum misserum lagt þunga áherslu á að hagkvæmni og samfélagsleg áhrif með tilkomu Tröllaskagaganga verði könnuð til hins ítrasta. Sveitarfélögin sendu m.a. áskorun til stjórnvalda í febrúar árið 2019, þess efnis að þau fjármagni grunnrannsóknir og samanburð á kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum slíkra ganga.

Fyrirfram er ljóst að með tilkomu Tröllaskagaganga myndi vinnusóknarsvæði á Mið-Norðurlandi stækka verulega og þjóðhagsleg og samfélagsleg áhrif yrðu mikil. Samgöngubót sem þessi myndi styrkja Mið-Norðurland verulega sem raunverulegan valkost við höfuðborgarsvæðið og styrkja svæðið á margháttaða vegu. Eru þá ótalin öryggissjónarmiðin en þau hafa endurspeglast vel í vetur í þeirri tíðu lokun vega sem verið hefur á Mið-Norðurlandi.

Nefna má að í skýrslu Háskólans á Akureyri frá því sumarið 2022 eru skoðaðir 3 kostir í Tröllaskagagögnum og fá Skíðadalsgöng, úr Hörgárdal til Skíðadals og þaðan áfram til Kolbeinsdals, bestu einkunnina. Við þau styttist leiðin á milli Akureyrar og Reykjavíkur um 17,3 km, leiðin á mili Akureyrar og Sauðárkróks, stærstu bæja Norðurlands, um 39,6 km og á milli Sauðárkróks og Dalvíkur um 53,7 km.

Reiknuð er út jákvæð arðsemi af göngunum, þau talin henta mjög vel til gjaldtöku, tenging myndi opnast verulega á milli svæða þar sem lítil samskipti eru í dag og segja skýrsluhöfundar að göngin „lágmarki vegalengdir og „dragi“ bæina á Norðurlandi eins mikið saman og hægt er. Þau myndu því hámarka breytingar á samskiptum.“ Skýrsluhöfundar segja einnig að „líkleg áhrif með hliðsjón af opinberum markmiðum á sviði byggðaþróunar yrðu mjög jákvæð.“

Með tilkomu Tröllaskagaganga yrði því unnt að tryggja mun betur samgöngur á milli stærstu þéttbýlisstaða á Mið-Norðurlandi, auka öryggi vegfarenda, bæta öryggi þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, styrkja samfélögin á svæðinu, stækka vinnusóknarsvæði, efla ferðaþjónustu og svona mætti lengi halda áfram.

Öll teikn eru á lofti um að hér sé um að ræða einhverja þjóðhagslega hagkvæmustu samgöngubót sem hægt er að ráðast í á landsbyggðinni og því afar brýnt að nú þegar verði hafin vinna við rannsóknir, frumhönnun og útreikninga á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga.