Tekist hefur að vinna töluvert niður uppsafnaðan málafjölda hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu (LRH) með fjölgun starfsfólks og breyttum vinnubrögðum. Opnum kynferðisbrotamálum á ákærusviði og í kynferðisbrotadeild LRH hefur fækkað um 37% á undanförnum mánuðum eftir að embættið hlaut sérstaka fjárveitingu til að styrkja rannsókn og saksókn kynferðisbrota. Til marks um þetta þá voru 401 opin mál hjá embættinu þann 1. september sl. en 17. janúar sl. voru þau komin niður í 253 og fækkaði því um 148. Embættinu barst á sama tíma nokkur fjöldi nýrra mála en í heild lauk rannsókn alls 239 kynferðisbrotamála á þessu fjögurra og hálfs mánaða tímabili.

Aðgerðaáætlun dómsmálaráðherra um meðferð kynferðisbrota fyrir árin 2023-2025 tekur gildi í febrúar 2023. Við vinnslu hennar var ákveðið að sérstök fjárveiting færi í að styrkja rannsókn og saksókn kynferðisbrota. Í samræmi við aðgerðaáætlunina úthlutaði dómsmálaráðherra strax á síðasta ári fjármagni til ráðninga í sjö nýjar stöður hjá LRH: Sérfræðing á líftæknisviði í tæknideild, sérfræðing hjá tölvurannsóknardeild, auk þess sem ráðið var í tvær nýjar stöður á ákærusviði og þrjár í kynferðisbrotadeild. Viðkomandi hófu allir störf haustið 2022.