Tökur á þáttaröð sjónvarpsseríunnar Flóði halda áfram á Ólafsfirði og næstu upptökur verða í kvöld og nótt, þann 7. – 8. apríl. Um er að ræða umfangsmikla senu sem inniheldur akstur ökutækis á völdum svæðum í bænum.

Akstursena verður frá Múlagöngum að Kaffi Klöru og þaðan að malarstæði við slökkvistöðina þar sem ökutækið mun aka í hringi með tilheyrandi spóli. Tökur enda svo við höfnina. Reiknað er með að tökur standi yfir til klukkan 03:00 í nótt og vonast framleiðsluteymið til að þær valdi sem minnstu ónæði fyrir íbúa og gesti í bænum. Þrátt fyrir að hljóð og ljós frá tökustað geti haft einhver áhrif á nærliggjandi svæði, er lögð áhersla á fagmennsku og öryggi á allri framkvæmd.

Glassriver vill koma á framfæri þökkum til íbúa Ólafsfjarðar og annarra gestkomandi fyrir sýnda þolinmæði og skilning á meðan á tökum stendur. Slík samvinna og umburðarlyndi samfélagsins gagnvart kvikmyndagerð skiptir sköpum fyrir framkvæmd verkefna af þessu tagi.

Íbúar eru beðnir um að sýna aðgát og virða merkingar, götulokanir og leiðbeiningar sem kunna að verða settar upp í tengslum við tökurnar og að forðast að fara inn á tökusvæðin á meðan þær standa yfir.