Svo ritar Svavar Gestsson á bloggi sínu, en hann hefur verið á ferðalagi í sumar.

Svo er það Siglufjörður. Síldarminjasafnið hefur þegar fengið fjölda viðurkenninga sem verðskuldað er. Safnið smitar út frá sér; það er menning í hverju skrefi í þessum gamla síldarbæ. Húsin þrjú, blátt, rautt og gult sæta tíðindum. Í miðbænum eru bekkir til að hvíla göngubein og rífa í sig nestið ef vill. Og svo er það Þjóðlagasetur Bjarna Þorsteinssonar í litlu og fallegu húsi í miðbænum. Þann stað þurfa allir að heimsækja og vera þar lengi og hlusta. Heyrst hefur að laglausustu menn hafi gengið syngjandi út.

En þegar ég gekk um Síldaminjasafnið þá saknaði ég upplýsinga um baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Á Siglufirði var verkalýðshreyfingin sterkari og róttækari en víða annars staðar. Er nokkuð á móti því að fara yfir þá sögu? Af hverju ekki að tala um Kommúnistaflokkinn og styrk hans? Staðreyndin er sú að það er ekki hægt að skilja Siglufjörð nema að skoða sögu verkalýðshreyfingarinnar á Siglufirði og sérstaklega Kommúnistaflokkinn.

Og svo er að skella sér Héðinsfjarðargöngin. Þau eru aldeilis frábær. Stórkostlegt að sjá Héðinsfjörð en því miður er spurt: Höfum við efni á þessu? Það er spurningin.

En Siglufjörður er margra heimsókna virði.

Bein slóð á færslu er hér.