Suðurgata 10 á Siglufirði hefur nú verið auglýst til sölu í heild sinni, en húsið á sér langa sögu og hafa mörg fyrirtæki og félög verið með rekstur í þessu frábæra húsi. Ásett verð er aðeins 50 milljónir króna, eða rúmlega 124.000 kr. á fermeter. Húsið er skráð 402 fm og er á þremur hæðum, byggt árið 1946, og er brunabótarmat rúmlega 136 milljónir. Nokkrar leigueiningar eru nú í húsinu og getur þetta því verið góð fjárfesting til framtíðar. Traustir leigendur eru nú þegar í húsnæðinu. Stórar svalir eru á efstu hæðinni þar sem er stórkostlegt útsýni yfir miðbæinn og líklega einar stærstu svalir í Fjallabyggð. Góð aðkoma er að húsinu og stutt í bílastæði og í nálægð við verslanir og þjónustu. Fasteignasalan Byggð Akureyri er með húsið í einkasölu.
Saga hússins
Flestir íbúar í Fjallabyggð kannast við Hrólf rakara en hann rekur Hrímni, hár og skeggstofuna í húsinu og einnig barinn Kveldúlf bar & bús fyrir innan rakarastofuna. Kveldúlfur opnaði um verslunarmannahelgina 2017 og tekur 30 manns í sæti en staðurinn hefur leyfi fyrir 40-45 manns.
Skrifstofuhúsnæði er á 2.-3. hæð hússins. Síðustu árin hefur Remote ehf, Sóti Summits ferðaskrifstofa, Premium leigt aðstöðu í húsinu. Í mörg ár voru einnig haldnir AA-fundir, Leikfélag Siglufjarðar hafði þar aðstöðu til margra ára og Verkalýðsfélagið Vaka svo eitthvað sé nefnt. Einnig hafa verið haldnar myndlistasýningar og bíósýningar í kringum 1950, en þá gekk húsið undir nafninu “Kommahöllin”.
Nánari lýsing
Á neðstu hæðinni er komið inn í anddyri og gang. Á vinstri hönd er rakarastofa með dúk á gólfi og síðum glugga sem snýr í átt að sjónum. Á hægri hönd eru tvö salerni og þar er dúkur á gólfi. Salurinn sem í dag er nýttur undir bar og er við enda gangsins. Hann er rúmgóður eða um 8,5 metrar á breidd og 5,5 metrar á dýpt. Inn af salnum er rými þar sem í dag er aðstaða fyrir pílu og geymslur.
Gengið er inn um aðrar dyr í stigahúsið á tvær efri hæðir hússins en parket er á stiganum líkt og flestum öðrum rýmum efri hæðanna ef undan eru skilin votrými. Á báðum hæðum er skrifstofu- og salernisaðstaða auk eldhúsaðstöðu.
Á 2. hæðinni eru þrjár skrifstofur þar sem ýmisst er aðstaða fyrir 1 – 3 aðila í hverri skrifstofu. Þar eru bæði salerni á stigagangi og innan rýmis á hæðinni auk eldhúsaðstöðu.
Opnara rými er á 3. hæðinni en þar er þó lokuð eldhúsaðstaða og rými sem í dag er nýtt undir geymslu fyrir skíðabúnað og fleira. Svalir eru á efstu hæðinni.
Húsið er í ágætu ásigkomulagi, búið er að drena að hluta, ekki var sjáanleg móða milli glerja og almennt ágætt ástand innanhúss.
Frekari upplýsingar hjá Byggð, fasteignasölu:
bjorn@byggd.is
greta@byggd.is
berglind@byggd.is
olafur@byggd.is
Skipagötu 16 á 2. hæð.
S:464 9955
