Á hverjum degi skolar tonnum af rusli á fjörur um allan heim en almenningur getur sannarlega lagt sitt af mörkum til að minnka þann skaða sem þetta veldur.

Samtökin Ocean Missions, í samstarfi við Mission Blue, Akureyrarbæ, Whale Watching Akureyri/ Eldingu hvalaskoðun, Whale safari og Eldingu Research, hafa skipulagt strandhreinsun við Eyjafjörð og bjóða öllum að taka virkan þátt í þessu átaki.

Næstu sunnudaga verða skipulagðar fjöruhreinsanir á svæðinu með stuðningi samtaka og fyrirtækja á svæðinu. Saman getum við haft veruleg áhrif á strandumhverfi okkar.

Fyrsti hreinsunardagur:
Hvenær: Sunnudaginn, 9. júní 2024
Mæting: Kl. 18 hjá Akureyri Whale Watching, Oddeyrarbót 2, 600 Akureyri (sjá hér til að finna staðinn á kortinu).
Þaðan verður ekið á hreinsunarstaðinn.

Þessa dagana er verið að meta strandsvæðin við fjörðinn og í framhaldinu verður ákveðið hvaða fjörur og strandsvæði verða fyrir valinu hverju sinni.

Alla sunnudaga fram í júlí verður hist hjá Akureyri Whale Watching. Hver hreinsun tekur á að giska 2-3 klukkustundir og þeim sem taka þátt verður boðið upp á létta hressingu og drykki í boði Ocean Missions. Hægt verður að fá bílfar á hreinsunarsvæðin svo framarlega sem beiðni um það berist fyrirfram á netfangið hér fyrir neðan. Endilega hafið samband ef einhverjar spurningar vakna. Netfang: akureyribeachcleanups@gmail.com.

Frekari upplýsingar má finna á vef verkefnisins: AKUREYRI BEACH CLEANUP — Whale Watching Akureyri