Grímseyingar eiga ekki grjót til þess að styrkja sjóvarnir við höfnina í eynni. Ríflega 18 hundruð tonn af grjóti frá meginlandinu verða því flutt út í eyna í sumar.

Ýmsir undarlegir hlutir hafa verið sendir til Grímseyjar í gegnum tíðina með Grímseyjarferjunni og nú er það grjót sem verður þó að teljast til óvenjulegri sendinga til eyjarinnar.

Grjót í varnir

„Það á að nota þetta grjót í varnir í höfnina hjá Grímseyingum,” segir Viðar Sigþórsson, vélamaður hjá Árna Helgasyni. „Þeir eiga ekkert svona grjót í eyunni með þessa staðla sem þeir þurfa.”

Grjótflutningarnir hófust í maí en um 4-9 steinar eru sendir til Grímseyjar með hverri ferð Sæfara þangað. Allt í allt verða um 200 hnullungar sendir til eyjarinnar en heildarkostnaður við lagfæringu brimvarnargarðsins er 16,5 milljónir króna.

„Þetta eru steinar, 9-12 tonn, hver þannig að þetta verður töluvert magn,” segir Viðar.

Úr námu í Ólafsfirði

Grjótið kemur úr námu í Ólafsfirði og er áætlað að flutningarnir standi yfir í allt sumar. „Það er náttúrulega ekkert hægt að byrja á þessu fyrr en við erum búnir að senda alla steinana. Það verður einhverntíman í ágúst – september.”

Heimild: Rúv.is