Í gær var sett á óvissustig Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi. Í dag var haldinn stöðufundur með viðbragðsaðilum sem málið varðar og farið yfir stöðuna. Engar sérstakar breytingar hafa orðið en talsverð skjálftavirkni er enn á svæðinu, þ.e. austur og austsuðaustur af Grímsey. Á þessum sólarhring hafa t.a.m. orðið 24 skjálftar stærri en 3 og hafa þeir fundist allt inn til Akureyrar. Upplýsingar um þetta eru mjög aðgengilegar inni á vef Veðurstofunnar, https://vedur.is/skjalftar-og-eldgos/jardskjalftar
Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur verið í sambandið við íbúa í Grímsey vegna stöðunnar og hefur komið fram að þeir finna vel fyrir skjálftunum en eru almennt rólegir yfir stöðu mála þó svo að það sé ávallt óþægileg tilfinning að vera í slíkri nánd við upptökin og að vera svona afskekkt ef að eitthvað skyldi koma uppá. Í þessu samhengi þá mun varðskipið Þór koma á svæðið nú næstu nótt og vera til aðstoðar ef á þarf að halda.
Áfram verður fylgst vel með þróuninni og hefur verið boðað til næsta stöðufundar á mánudaginn eða fyrr ef á þarf að halda.