Sjö stéttarfélög í Eyjafirði afhentu á mánudaginn síðastliðinn, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Hjálparstarfi kirkjunnar, Hjálpræðishernum og Rauða krossinum styrk að upphæð kr. 2.120.000.

Styrkurinn verður notaður í samstarfsverkefni Mæðrastyrksnefndar Akureyrar, Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins og Rauða krossins. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi samtök taka höndum saman fyrir jólin og veita þeim aðstoð sem þurfa með þátttöku fyrirtækja og bæjarbúa á Akureyri og nágrenni. Samstarfið á að einfalda málið, nú þarf einungis að sækja um aðstoð á einum stað. Rétt er að vekja athygli á því að þessir aðilar aðstoða fólk um allan Eyjafjörð, frá Siglufirði að Grenivík.

Það sem þarf að gera er að hringja í síma  867 5258 milli kl. 10:00 og 12:00 á mánudegi, þriðjudegi eða miðvikudegi fyrir 11. desember nk., en þann dag verður byrjað að úthluta. Varðandi umsóknir má einnig hafa samband við félagsþjónustu Dalvíkurbyggðar og prestana út með firði.


Félögin sjö sem færðu nefndinni styrk eru Eining-Iðja, Byggiðn – Félag byggingamanna, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrennis, Sjómannafélag Eyjafjarðar, Sjómannafélag Ólafsfjarðar og Berg félag stjórnenda.

Ef einhverjir fleiri vilja leggja átakinu lið þá er hægt að leggja pening inn á reikning verkefnisins, (0302-13-175063, kt. 460577-0209) Munið, margt smátt gerir eitt stórt.

Fréttatilkynning frá Einingu-Iðju, Byggiðn – Félagi byggingamanna, Félagi málmiðnaðarmanna Akureyri, Félagi verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Sjómannafélagi Eyjafjarðar, Sjómannafélag Ólafsfjarðar og Bergi félagi stjórnenda.

Heimild: www.ein.is