Helstu starfsemistölur Sjúkrahússins á Akureyri eru þær að fjöldi dvalardaga á tímabilinu janúar til september fyrir árið 2022 eru 20.540 og er meðalfjöldi legudaga 5,3. Flestir sjúklinganna eru lagðir inn í bráðainnlögn en þær eru rúmlega 78% af heildarinnlögnum. Að meðaltali liggja 5,1 sjúklingar inni á hverjum tíma sem eru búnir í meðferð og bíða eftir endurhæfingu eða plássi á hjúkrunarheimili. Rúmanýting á lyflækninga- og skurðlækningadeild er 88,6% yfir árið.

Rúmlega 8500 einstaklingar hafa fengið þjónustu á göngudeild og þar af 1559 vegna krabbameinslyfjagjafar en sú þjónusta er stöðugt vaxandi. Á bráðamóttöku eru 15.275 komur sem er sambærilegt við fjölda koma yfir sama tímabil og árið 2021 (tölur sem ná yfir komur á bráðamóttöku, göngudeild og sérfræðimóttöku). Biðtími eftir því að hitta lækni á bráðamóttöku er um 44 mínútur sem er rétt utan þeirra viðmiða sem við setjum okkur. Fjöldi skurðaðgerða hefur fækkað á milli ára og er helsta skýringin þar álag vegna Covid-19 en draga þurfti úr þjónustu vegna álags og manneklu. Gerðar hafa verið 256 gerviliðaaðgerðir það sem af er ári. Fjöldi fæðinga er aðeins minni en í fyrra en fram til dagsins í dag hafa 324 einstaklingar litið dagsins ljós.

Nú er hægt að birta tölur varðandi þjónustu myndgreininga og rannsókna en fjöldi myndgreiningarannsókna (án brjóstamynda) var tæplega 22.000 og gerir það 80 rannsóknir á dag. Tæplega 232.000 rannsóknir voru gerðar tímabilið janúar til ágúst og þar af voru framkvæmd rúmlega 41.000 PCR rannsóknir vegna Covid.

Mikið hefur verið um komur útlendinga á sjúkrahúsið, bæði á bráðamóttöku og til innlagna og verður gerð nánari grein fyrir þeim í sér pistli fljótlega.

Texti: sak.is