Aldrei hafa jafnmörg blaklið verið saman komin á einum stað á Íslandi og um helgina þegar stærsta blakmót Íslandssögunnar, öldungamót Blaksambands Íslands, var haldið í Fjallabyggð. Mótinu lauk í gær.

Síðastliðna daga hefur fátt annað en blak komist að á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði. Þar hafa um 1100 öldungar spilað blak, bæði innandyra og utan,  í gamni og líka af mikilli alvöru.

Að sögn Óskars Þórðassonar, sem sat í mótsnefnd öldungamótsins, er blakáhugi landsmanna í örum vexti og er öldungamótið orðið það stórt að einungis örfáir staðir á landinu geta hýst það. Áhugi fyrir íþróttinni er ekki síst mikill úti á landi enda hentar blakið litlum bæjarfélögum mjög vel. Ekki þurfi stór íþróttahús né marga leikmenn til þess að geta æft blak.

“Menn eru fljótir að ná tökum á þessu ef þeir stunda þetta og svo er þetta svo gaman og skemmtilegt og félagsskapurinn góður. Þannig að menn laðast að þessu.”

Keppendur á mótinu í ár voru allt frá þrítugu og upp í 74 ára en heldur hallaði á karlpeninginn því kvennaliðin voru meir en helmingi fleiri en karlaliðin, eða 98 af 142.

Heimild: Rúv.is