Bæjarráð Fjallabyggðar ræddi í gær stöðu Múlaganga við Ólafsfjörð, en göngin eru einbreið og 3,4 km á lengd með innskotum fyrir 4 bíla með reglulegu millibili. Göngin sinna ekki lengur þeim umferðarþunga sem kemur þegar stórar hátíðir eru í Fjallabyggð eða Dalvíkurbyggð.
Í ljósi þeirra umferðartafa og öngþveitis sem skapaðist hjá vegfarendum í Múlagöngum á sunnudag sl. þegar gestir Fiskidagsins mikla voru að fara til síns heima hefur bæjarráð Fjallabyggðar lýst áhyggjum sínum af öryggi íbúa og gesta Fjallabyggðar þegar slíkar aðstæður skapast. Má til dæmis benda á mikilvægi þess að neyðarþjónusta í forgangsakstri svo sem lögregla og sjúkrabílar þurfa að geta komist klakklaust leiðar sinna á dögum sem þessum, þegar umferðarþungi er mikill um göngin. – Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Fjallabyggðar.
Lögreglan sinnti umferðarstjórnun á föstudegi og laugardegi á Fiskideginum mikla og gekk umferð um göngin vel þá daga. Engin umferðarstjórn var á sunnudeginum og var þá mikill umferðarþungi í gegnum göngin.
Bæjarráð Fjallabyggðar hefur boðað lögreglustjóra á næsta fund ráðsins til að ræða málin frekar.
