Bakhjarlar Eims, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landsvirkjun, Samtök sveitarfélaga- og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur, ásamt Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra undirrituðu í dag samkomulag um inngöngu samtakana í Eim. Eimur hefur það meginmarkmið að bæta nýtingu auðlinda með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Nú spannar starfsvæði félagsins allt Norðurland.
Með aðild SSNV nær starfssvæði Eims yfir allt Norðurland. Mikil tækifæri eru fólgin í vexti Eims til vesturs. Landshlutinn er mikil matarkista, með framleiðslu á landbúnaðarvörum og öflugri útgerð. Þá er starfsemi Landsvirkjunar umtalsverð á svæðinu og útlit er fyrir aukna orkuvinnslu á Blöndusvæði í náinni framtíð.
Félagið Eimur var stofnað árið 2016 og hefur sinnt verkefnum sem snúa að fjölnýtingu jarðvarma, stuðningi við nýsköpun, orkuskiptum og innleiðingu hringrásarhagkerfis t.a.m. í iðnaði. Í dag starfa fimm hjá Eimi, og með stækkuninni verða ráðnir tveir nýir starfsmenn með skrifstofu á Norðurlandi vestra. Eimur var fyrirmyndin að stofnun sambærilegra verkefna, Orkídeu á Suðurlandi, Bláma á Vestfjörðum og Eygló á Austurlandi.
Eimur miðar að því að leiða saman fólk og fyrirtæki til samstarfs um tilraunir, rannsóknir og þróunarverkefni á sviði orku-, auðlinda-, og loftslagsmála, meðal annars gegnum alþjóðleg samstarfsverkefni. Þetta er besta leiðin til þess að flytja inn þekkingu á því hvernig aðrar þjóðir takast á við áskoranir samtímans, og sú þekking er svo nýtt til að gera slíkt hið sama hér innanlands.