Í dag var hinn langþráði sólardagur á Siglufirði en laugardaginn 25. janúar var fyrsti sólardagur ársins í Ólafsfirði. Íbúar í Fjallabyggð fagna því í dag að sólin er aftur farin að varpa geislum sínum yfir bæinn eftir 74 daga fjarveru, en sólin hverfur á bak við fjöllin í suðri 15. nóvember ár hvert.
Pönnukökur eru víða á borðum í tilefni dagsins og í hádeginu fjölmenntu nemendur yngri bekkja Grunnskóla Fjallabyggðar til að heilsa þeirri gulu með viðeigandi söng í kirkjutröppunum eins og þeir hafa gert um árabil.
Guðmundur Gauti Sveinsson tók þessa mynd sem fylgir fréttinni.