Framkvæmdir við snjóflóðavarnir við Ólafsfjarðarveg eru í fullum gangi. Snjóflóð falla þar á veginn á hverju ári með tilheyrandi hættu fyrir vegfarendur.

Snóflóðavarnirnar við Ólafsfjarðarveg eru hvorki í formi garða eða girðinga í fjallshlíðinni heldur er verið að setja upp stálþil fyrir ofan veginn á þremur stöðum. Þilin eiga að hindra það að snjóflóð falli á veginn en bak við þau hafa verið grafnir út svokallaðir snjóflóðaskápar sem taka munu við því sem fellur úr fjallshlíðinni. Þessi aðferð er ekki algeng hér á landi en hefur þó verið prófuð á Vestfjörðum með góðum árangri.

Rúnar Jónsson, eftirlitsmaður Vegagerðarinnar, segir þetta mun ódýrari kostur og þess vegna hafi hann verið valinn til prufu. Þetta sé tilraunaverkefni og vonir standi til að það virki. Ekki sé þar með hægt að losna við snjóflóð því fleiri slík falli innar á Sauðanesinu.

Stálþilin, sem eru tveir og hálfur metri á hæð, eru samtals 130 metrar að lengd. Ef þau gefa góða raun má búast við því að samskonar þil verði sett upp víðar við veginn. Áætlað er að verkið klárist fyrir októberlok enda ekki seinna vænna því nú þegar er farið snjóa í fjallshlíðina sem fært hefur snjófljóð á veginn á hverju ári með tilheyrandi hættu fyrir vegfarendur. Rúnar segir að menn hafi lent í vandræðum og orðið innlyksa milli snjóflóða. Bílar hafi meira að segja lent í flóðum en sem betur fer hafi ekki orðið óhöpp.

Rúv.is greinir frá.