Lífshættulegt snjóflóð féll nýlega í Héðinsfirði yfir spor rjúpnaskyttu. Snjóaeftirlitsmaður á Norðurlandi segir varasamt að fara um víða á svæðinu. Í Héðinsfirði féll flóð úr Folaldaskál, töluvert langt frá veginum. Gestur segir í viðtali við Rúv.is að slíkt snjóflóð myndi rústa byggingum, kaffæra bílum og deyða menn en þarna hafi sem betur fer enginn verið á ferðinni. „Og þó, það var eilítið skrýtið að sjá það þegar ég mældi snjóflóðið að það voru fótspor eftir rjúpnaskyttu sem hafði gengið þarna inn þvert yfir eftir hlíðinni deginum áður.“ Gestur segir að þetta sýni að fólk þurfi að vera vakandi, sérstaklega þegar veðrið sé svona breytilegt.

Gestur Hansson snjóaeftirlitsmaður Veðurstofunnar segir að í síðustu viku sé vitað um fjögur stór snjóflóð sem féllu í Skagafirði og í Héðinsfirði.Í Engihlíð ofan Hofsóss féll flóð af manna völdum sem voru á snjósleðum á svæðinu.

Annað flóð sem átti upptök sín í Úlfsskál ofan Sleitustaða flutti með sér 70 tonna stein um 300 metra. Gestur segir að ábúandi á Sleitustöðum segi að þetta sé í annað sinn sem steinninn færist til vegna snjóflóða. Flóðið eyðilagði girðingar og braut niður stífluvegg uppistöðulóns við rafstöð.

Þá féll flóð innan við Hóla í Hjaltadal.

Heimild: www.ruv.is

Ljósmynd: Ragnar bróðir Magnússon