Vegurinn til Siglufjarðar (Þjóðvegur 76) var opnaður um eittleytið, eftir að hafa verið lokaður vegna snjóflóðs í um einn og hálfan klukkutíma.

Að sögn Sigurbjörns Þorgeirssonar, lögreglumanns frá Ólafsfirði, féll flóðið úr Miðstrandargili, sem oft falla flóð úr.  Segir Sigurbjörn að það hafi verið um tveggja til þriggja metra þykkt og á að giska tíu metrar á breidd þar sem það fór yfir veginn.

Lögreglan hafði samband við snjóflóðaeftirlitsmann og mokstursmann frá Siglufirði og eftir samráð við þá var ákveðið að opna veginn. Það tók um klukkutíma og er umferð því komin aftur á.  Engan sakaði vegna snjóflóðsins.

Ljósmynd: Lögreglan Ólafsfirði. Heimild: Mbl.is