Slökkvilið Fjallabyggðar og sjúkraflutningamenn hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands æfðu með áhöfn varðskipsins Freyju á Siglufirði í vikunni.
Með æfingunni náðu ofangreindir viðbragðsaðilar að stilla saman strengi og takast á við verkefni í sameiningu þar sem hugsað var í lausnum.
Sett voru upp verkefni á tveimur stöðum í skipinu. Annað þar sem reykkafarar varðskipsins og slökkviliðs þurftu að leysa og svo þar sem reykkafarar, sjúkraflutningamenn og áhöfn þurfu að meðhöndla slasaða einstaklinga í neðri þilförum skipsins.
Kalt var í veðri og var æfingin nokkuð krefjandi vegna þess sem gerir menn enn betur í stakk búna til þess að takast á við það óvænta í útköllum.
Slökkvilið Fjallabyggðar greindi frá þessu á samfélagsmiðlum.