Landslag í Torfufellsdal í Eyjafirði er gerbreytt eftir feykileg skriðuföll sem urðu þar í lok síðustu viku. Talið er að tvær skriður hafi fallið úr Torfufelli og þekja þær um hálfan ferkílómetra í dalnum.
Það þarf ekki að fara langt upp í Torfufellsdal til að átta sig á hversu gríðarlegar náttúruhamfarir þarna hafa orðið. Þykkt lag af jarðvegi hefur borist langt niður dalinn og tekið með sér heilu björgin úr fjallinu. Framhlaupið hefur stíflað Torfufellsána sem síðan hefur brotið sér leið um nýjan farveg og ofan við hlaupið hefur myndast uppistöðulón. Náttúran í dalnum hefur tekið á sig nýjan svip.
Jón Hlynur Sigurðsson frá Torfufelli í Eyjafjarðarsveit segir líklegt að skriðurnar úr fjallinu hafi verið tvær. Það hafi verið merki um sprungur þvert í hlíðina meðfram kindagötum og hugsanlega hafi þær farið af stað fyrst og síðan hafi fyllan komið á eftir. Og þá hafi aurinn sem var kominn niður spýst lengra.
Leirkennt líparítið í fjallinu er talin höfuðorsök þess að þetta gerðist en einnig að vatn hafi safnast fyrir eftir úrkomur undanfarið. Jón Hlynur segir enga byggð svo ofarlega í dalnum en menn hafi verið þarna í smalamennsku í mikilli rigningu fyrir fáum vikum. Þannig að það hefði getað orðið stórslys. Hann segir að gróðurfarið á þeim hálfa ferkílómerta sem nú sé þakinn aur og grjóti verði allt að 30 ár að ná sér að fullu.
Rúv.is greinir frá.