Í gærkvöldi barst tilkynning um skriðu sem féll skammt frá bænum Halldórsstöðum innarlega í Eyjafjarðardal. Skriðan féll kl. 17.15 samkvæmt upplýsingum frá Ragnari Jónssyni, bónda á Halldórsstöðum. Skriðan átti upptök sín í farvegi neðan við klettabelti sem er í miðri hlíðinni og nemur staðar neðarlega í hlíðinni en náði ekki niður á flatann. Það var lítil úrkoma í gær, fimmtudag, en nokkur rigning á miðvikudag að sögn bóndans.
Skriðusérfræðingur Veðurstofu Íslands fór á vettvang til að kanna aðstæður og tók eftir tveimur öðrum nýlegum skriðum innst inn í Eyjafjarðardal. Þær skriður voru efnislitlar og ollu engu tjóni. Vatn rennur um flesta lækjarfarvegi og snjór er efst í fjöllum innarlega í dalnum. Jarðvegur er víða blautur eftir leysingar síðustu vikna og því ekki hægt að útiloka að fleiri skriður geti fallið, veðurspáin gerir þó ráð fyrir svölu veðri næsta sólarhringinn og lítilli úrkomu sem dregur úr líkum á skriðuföllum.
Fyrr í vikunni barst Veðurstofunni tilkynning um skriðu sem féll í farvegi í Langadal, skammt frá Húnaver. Skriðan náði ekki niður á veg. Þessir atburði gefa til kynna að jarðvegurinn er víða blautur á norðanverðu landinu og sumstaðar er snjór enn efst til fjalla. Þegar að staðbundin úrkoma verður geta skriður fallið án mikils fyrirvara og því er best að sýna aðgát og fylgjast með vel með aðstæðum í fjallshlíðum þar sem fólk er að störfum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.