Þjóðskjalasafn Íslands auglýsti í samvinnu við SSNE tvö tímabundin störf til allt að 18 mánaða við skráningu sóknarmannatala. Störfin felast í vinnu við innslátt sóknarmannatala í rafrænan gagnagrunn. Í Þjóðskjalasafni eru varðveitt ríflega 1500 sóknarmannatöl frá um miðri 18. öld til miðrar 20. aldar og hefur verið unnið að innslætti þeirra í leitarbæran gagnagrunn á undanförnum árum.

Störfin byggja á styrksamningi Þjóðskjalasafns Íslands við Byggðastofnun f.h. innviðaráðherra, með vísan í aðgerð B.8 Fjarvinnslustöðvar í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024, og eru þau samstarfsverkefni SSNE, Þjóðskjalasafns, Norðurþings og Langanesbyggðar.

Það er fagnaðarefni að störfin séu komin á staðina enda samfélagsleg áhrif af einu starfi mikil í smærri byggðakjörnum. Sú stefna sem fram kemur í áætluninni um uppbyggingu fjarvinnslustöðva á landsbyggðinni og störf án staðsetningar er mikilvægur liður í því að fjölga atvinnutækifærum í hinum dreifðari byggðum.

Heimild: ssne.is