Varðar auglýsingu um deiliskipulag fyrir útivistarsvæði í Hólsdal
Skógræktarfélag Siglufjarðar vill koma fram eftirfarandi athugasemdum við deiliskipulags uppdrátt:

1.  Reitir merktir F1, F2, F3 og F4 frístundahús verði felldir út.  Ekki kemur til greina að gert verði ráð fyrir frístundahúsum á aðal vinnusvæði og aðkomu að Skógræktinni í Skarðsdal.  Þar eru fyrir vinnuskúr og áhaldageymsla ásamt snyrtingu fyrir starfsfólk og gesti Skógræktarinnar einnig vinnusvæði og gróðursetningarreitir sem búið er og verið er að gróðursetja í.

2.  Grænir blettir merktir sem hluti golfvallar þurfa nánari athugunar við, blettir sunnan merkts bílastæðis golfvallar eru svæði sem síðastliðin 20-30 ár hafa verið reitir sem skólabörn og skólaárgangar hafa plantað í og ekki verður eyðilagt.  Svæði sem færi undir bílastæði og golfskála þarf einnig að skoða og hvað af plöntum og landssvæði færi úr skógrækt og hvað þá kæmi í staðinn.

3.  Svæði sunnan Leyningsár sem golfklúbburinn hefur hug á að fá er þegar búið að planta í nokkur þúsund plöntur og er þinglýst með samningi milli Bæjarstjórnar Siglufjarðar og Skógræktarfélags Siglufjarðar, Skógræktarfélag Íslands ásamt samningi um plöntun Landgræðsluplantna.
Þar þyrfti að taka tillit til hvað færi af trjám undir og hvernig yrði bætt.  Á þessu svæði eru einnig rústir og minjar fyrri búsetu á svæðinu sem þarf að varðveita.  Einnig þarf að taka  tillit til að þetta sker sundur samfellu í skógræktarsvæðinu.

4.  Skipulag svæðisins þarf að gera ráð fyrir að starfsfólk skógræktarinnar ásamt gestum fólkvangsins komist um svæðið með tól og tæki bæði til umhirðu og grisjunar ásamt því að njóta þessarar “Perlu Fjallabyggðar”.

5.  Við gerð slóða og vinnuvega um svæðið þarf að passa upp á að hægt sé að komast um ásamt því að ræsi eða brýr séu rétt gerð svo ekki skaði gönguleiðir bleikju eins og nú er með ræsið yfir Leyningsá.

6.  Skógræktarfélagið vonar að góð samvinna milli aðila geti gert allt svæðið að frábæru útivistarsvæði fyrir íbúa Fjallabyggðar og gesti.  Allt bætt aðgengi um útivistarsvæðið í Hóls og Skarðsdal ásamt lagfæringum og frágangi á efnisnámum neðan skógræktarinnar er gott mál og ætti að vera dálitíð metnaðarfullt verkefni fyrir sveitarfélagið.  Skógræktarfélagið bendir á að talsverð umferð er um Hólsdalinn sérstaklega  á veiðitíma í Hólsánni svo og berjatímanum í hlíðum fjallanna beggja vegna ásamt hestasporti, göngu og skíðagöngufólki.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur farið yfir athugasemdirnar og felur tæknideild að koma með tillögur að svörum.