Skemmtiferðaskipið MS Fram frá norska Hurtigruten skipafélaginu kom óvænt í gær til Siglufjarðar með 115 farþega sem fóru allir í leiðsögn og síldarsmakk á Síldarminjasafninu ásamt fleiri skoðunarferðum um Siglufjörð.  Skipið kom með mjög litlum fyrirvara og var ekki á dagskránni að koma til Siglufjarðar. Fyrsta skipið átti að koma 26. maí næstkomandi, en þá er von á skemmtiferðaskipinu Deutchland með 500 farþega.

MS Fram stoppaði í hálfan dag á Siglufirði og sigldi þaðan til Akureyrar. Í kvöld fer skipið frá Akureyri til Grímseyjar, en þar verður skipið á morgun frá kl. 8-16.