Siglfirðingur.is greinir frá því að Skákfélag Siglufjarðar verði með opið hús í kvöld, frá kl. 20.00 til 23.00, í safnaðarheimili Siglufjarðarkirkju. Þar verður m.a. farið yfir skákirnar frægu 1958 og 1959, þegar Friðrik bar sigurorð af Bobby Fischer, sem þá var 15 og 16 ára, en hann varð sem kunnugt er heimsmeistari árið 1972, sá 11. í röðinni frá upphafi.

Skákdagurinn er haldinn um allt land í fyrsta sinn í dag, 26. janúar. Teflt verður í skólum, á vinnustöðum, í heitum pottum, á kaffihúsum, úti á sjó, á dvalarheimilum og víðar. 
Skákdagurinn er tileinkaður Friðrik Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga og fyrrverandi forseta Alþjóða skáksambandsins. Friðrik, sem verður 77 ára í dag, var lengi meðal bestu skákmanna heims.