Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar þann 7. september sl. var samþykkt að framkvæmd við sjóvarnargarða á Siglunesi yrði send í grenndarkynningu til landeigenda á Siglunesi.  Þar sem ekkert deiliskipulag er til fyrir viðkomandi svæði þarf framkvæmdin í grenndarkynningu áður en framkvæmdaleyfi er veitt. Nefndinni bárust 4 athugasemdir sem hægt er að lesa hér.

Framkvæmd þessi er tvíþætt:
1. Efnistöku fyrir áætlaða sjóvarnargarða þar sem áætlað magn er 1.200-1.600m³ og yfirborðsflatarmál 4.000-5.000m².
2. Tvo aðskilda sjóvarnargarða, annar um 60 m að lengd og hinn um 20 m að lengd.

Framkvæmdinni er ætlað að verja tvö mannvirki, fiskverkunarhús og frístundahús, sem hætta er á að tjónist af völdum sjógangs. Sjóvarnargarðar verða reistir framan við hvort húsið. Áætlunin gerði ráð fyrir að opnuð yrði efnisnáma í námunda við fyrirhugaða sjóvarnagarða á Siglunesi til að halda kostaði niðri við framkvæmdina. Fallið var frá því að opna fyrirhugaða námu og þess í stað mun efnistaka fara fram í framhlaupi úr Nesnúp upp undir Siglunesvita, í landi Vélaverkstæðis Hjalta Einarssonar.
Vinnuvélar verða fluttar á staðinn á sjó með pramma sem staðsettur er á Siglufirði. Þeim verður ekið um á núverandi vegslóða sem liggur milli umræddra húsa og Siglunesvita. Þar sem gert er ráð fyrir að grjótnám og flutningur á því eigi sér stað á meðan frost er í jörðu ætti áhrifa vélanna ekki að gæta að miklu leyti, enda verði fyllstu varúðar gætt við notkun þeirra svo umhverfið hljóti ekki skaða af.