Nágrannaliðin Dalvík/Reynir og Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mættust í gær í 10. umferð 3. deildar karla. Frítt var á völlinn og var búist við hörku nágrannaslag.  Nokkrir lykil leikmenn voru komnir aftur í hópinn hjá KF eftir leikbönn, en það voru Milan Marinkovic og Bozo Predojevic ásamt þjálfara liðsins, Slobodan Milisic.

Gestirnir voru sterkari í leiknum og gerðu fyrstu tvö mörk leiksins í fyrri hálfleik, en Ljubomir Delic skoraði á 28. mínútu og kom KF yfir 0-1, hans 5. mark í 9 leikjum. Nokkrum mínútum síðar skoraði Aksentije Milisic og jók forystuna í 0-2, hans þriðja mark í sumar. Milan Marinkovic kom KF í 0-3 á 60. mínútu með sínu þriðja marki í sumar. Dalvík minnkað svo muninn í 1-3 á 68. mínútu leiksins með marki frá Pálma Birgissyni og gaf heimamönnum smá von. Fjórum mínútum síðar, eða á 72. mínútu slökkti Valur Reykjalín Þrastarson í öllum vonum heimamanna, og skoraði fjórða mark KF, staðan 1-4 og sigurinn vís. Á 81. mínútu gerir KF sjálfsmark og staðan orðin 2-4, en í blálokin skorar KF fimmta markið, en það var varamaðurinn Magnús Aron Sigurðsson með sitt fyrsta mark fyrir KF, en hann kom frá Leikni Reykjavík fyrir tímabilið. Lokatölur 2-5 í þessum mikla markaleik og KF skaust upp í 3. sætið og Dalvíkingar eru sem fyrr í 8. sæti.