Kaupfélag Skagfirðinga hefur ákveðið á að setja upp sjálfsafgreiðslukassa sem valkost í dagvöruversluninni Skagfirðingabúð á Sauðárkróki. Mannaðir afgreiðslukassar verða áfram í versluninni. „Þegar við vorum að huga að nýju afgreiðslukerfi fyrir verslanir okkar ákváðum við að heimsækja fjölda verslana hér á landi og erlendis og kanna hver framtíðarmúsíkin væri í þessum efnum. Á endanum ákváðum við að taka upp afgreiðslukerfi frá Advania og setja upp sjálfsafgreiðslukassa sem valkost fyrir þá sem vilja. Markmiðið er að þeir losi um raðir á álagstímum svo sem í hádeginu og seinnipart dags. Með þessu breytist hlutverk afgreiðslufólks og það öðlast nýtt og fjölbreyttara hlutverk. Það getur varið tíma sínum í að þjónusta viðskiptavini, fylla á vörur og hlúa að versluninni,“ segir Marteinn Jónsson, framkvæmdastjóri verslunar- og þjónustusviðs Kaupfélags Skagfirðinga..
Sjálfsafgreiðsla hefur fest sig í sessi í íslenskum verslunum á örskömmum tíma. Á nokkrum mánuðum hafa allar stærstu matvöruverslunarkeðjur landsins stigið það skref að bjóða sjálfsafgreiðslu sem valkost í verslunum sínum. Neytendur hafa tekið þessum afgreiðslumáta vel og verið óhræddir við að prófa.
Kaupfélag Skagfirðinga rekur byggingavöruverslun, bílabúð og þrjár dagvöruverslanir í Skagafirði. Sjálfsafgreiðslubúnaðurinn var settur upp í Skagfirðingabúð í nóvember og fer vel af stað. Hann er framleiddur af NCR sem er leiðandi á heimsmarkaði í afgreiðslulausnum. Advania þjónustar afgreiðslukerfið en það er þaulprófað um allan heim og afar notendavænt.
„Kaupfélag Skagfirðinga hefur verið mjög lengi í verslunarrekstri. Við viljum fylgja tækninni í þessu eins og öðru sem við erum í. Við ætlum hinsvegar að byrja hægt og prófa okkur áfram. Við viljum vera framsækin og hugsa til langs tíma,“ segir Marteinn.
Heimild: advania.is