Símanotkun nemenda í grunnskólum Akureyrarbæjar hefur verið til umræðu upp á síðkastið. Því var ákveðið að efna til víðtæks samráðs varðandi hugmyndir um samræmdar símareglur í grunnskólunum.
Starfshópur starfaði á tímabilinu nóvember 2023 til mars 2024. Í honum voru kjörnir fulltrúar, fulltrúar foreldra og ungmenna, starfsfólk skóla og starfsfólk af fræðslu- og lýðheilsusviði. Hópurinn vann að því að skoða kosti og galla samræmdra símareglna og símafrís í grunnskólum.
Hópurinn hefur nú lagt fram nýjar símareglur sem taka gildi við upphaf næsta skólaárs í ágúst 2024. Tilgangurinn með sáttmálanum er fyrst og fremst að skapa góðan vinnufrið í skólum, stuðla að bættri einbeitingu, auknum félagslegum samskiptum og vellíðan nemenda og starfsfólks skóla. Sáttmálinn verður birtur á veggspjaldi og honum fylgja nánari upplýsingar fyrir starfsfólk skóla.
Sáttmálinn er svohljóðandi:
- Í grunnskólum Akureyrarbæjar skulu nemendur ekki nota síma á skólatíma, hvorki í skólanum né á skólalóð. Leiðin milli skóla og íþróttamannvirkja telst til skólalóðar. Þetta á einnig við önnur snjalltæki sem trufla kennslu og einbeitingu (t.d. snjallúr).
- Á föstudögum er nemendum á unglingastigi heimilt að nota síma í frímínútum á skilgreindum svæðum.
- Símar og önnur snjalltæki eru ávallt á ábyrgð eigenda sinna.
- Komi nemendur með síma í skólann, þá skulu nemendur í 8.–10. bekk geyma símana í læstum skápum og yngri nemendur geyma símana í töskum. Símar skulu ekki geymdir í fatnaði nemenda eða á borðum.
Undantekningar:
- Símafrí nær ekki til skólaferðalags nemenda við lok 10. bekkjar. Hver skóli ber ábyrgð á því hvernig þeim reglum skuli hagað í samráði við áfangastað.
- Nemendum sem þurfa á síma að halda vegna heilsufarslegra ástæðna (t.d. vegna sykursýkismælinga) er heimilt að hafa síma á sér, en aðeins til notkunar í þeim tilgangi.
Viðbrögð við notkun síma í leyfisleysi:
Sé reglum um símafrí ekki fylgt eftir fær nemandi áminningu/samtal við kennara og tækifæri til setja símann á viðeigandi stað. Við endurtekið brot er nemanda boðið að velja á milli þess að:
- A. afhenda símann sem verður geymdur á skrifstofu skólastjórnanda til loka skóladags nemanda.
- B. fara á skrifstofu skólastjórnanda og bíða þar uns foreldri hefur komið í skólann til að ljúka afgreiðslu málsins.
Við ítrekuð brot á símafríi er boðað til fundar með nemanda og foreldrum og skráning gerð í Mentor.
Í símalausu skólastarfi notar starfsfólk ekki síma sína á svæðum nemenda nema með einstökum undantekningum og þá vegna starfsins.