Björgunarskipið Sigurvin braut leið í gegnum mesta ísinn i höfninni á Siglufirði í gær og er nú að mestu greiðfært fyrir þá sem ætla að sækja sjóinn á smærri bátum frá Siglufirði.
Eftir langvarandi kuldakast undanfarnra vikur var orðið erfitt fyrir smábáta að athafna sig í höfninni á Siglufirði.
Sigurvin hefur reynst vel þann tíma sem hann hefur þjónað sjófarendum fyrir Norðurlandi en nú styttist í að nýtt og öflugra skip leysi þetta happafley af hólmi.
Sigurvin fær nýja heimahöfn á Suðurnesjum þegar nýtt björgunarskip kemur til Fjallabyggðar.
Björgunarsveitin Strákar greindu fyrst frá þessu á samfélagsmiðlum ásamt þessum drónamyndum í þeirra eigu.

