Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefur óskað eftir því að kallaður verði saman hópur ráðuneytisstjóra og fulltrúa viðeigandi stofnana til að fara yfir þá stöðu sem skapast hefur á Siglufirði og í Ólafsfirði vegna óvenju mikillar rigningar undanfarna daga. Þær hafa meðal annars valdið vatns-og aurflóðum á svæðinu. Hópnum er ætlað að meta hvernig bregðast megi við, meðal annars í samráði við bæjaryfirvöld í Fjallabyggð.
“Þarna hafa átt sér stað mjög óvenjulegir atburðir. Nauðsynlegt er að bregðast skjótt við, fara yfir stöðuna með okkar lykilstofnunum og meta hugsanleg viðbrögð. Það munum við gera í góðri samvinnu við heimamenn,” sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Þetta kemur fram á fésbókarvef Forsætisráðuneytis.