Ekki er útlit fyrir að veður lagist að marki vestan- og suðvestanlands fyrr en seint í kvöld og í nótt. Áfram verður hvöss V -átt og élin mjög dimm. Á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi lægir þó heldur með kvöldinu og dregur þar úr éljum. Vindur gengur ekki niður svo heitið getur norðaustan- og austanlands fyrr en í fyrramálið. Þar verður þó úrkomulaust, en víða skafrenningur og kóf, einkum á fjallvegum.
Á Norðurlandi er hálka ásamt skafrenning eða éljum nokkuð víða. Flughált er sumstaðar á útvegum. Ófært og stórhríð er á Vatnsskarði, Siglufjarðarvegi og Öxnadalsheiði og þungfært og stórhríð á Þverárfjalli. Þæfingsfærð og óveður er í Víkurskarði og ófært og óveður er í Ljósavatnsskarði, snjóþekja og óveður á Mývatnsheiði.