Selur sást á svamli í Eyjafjarðará í dag. Var hann kominn til móts við bæinn Ytragil og dólaði hann sér þar hinn rólegasti á sandeyrunum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem selur sést í ánni en að sögn Hermanns Brynjarssonar hjá Veiðifélagi Eyjafjarðarár eru til sögur af selum sem synt hafa upp ána allt inn að Saurbæ. Algengara er þó að selir sjáist neðst í ánni og þá helst á vorin og haustin en þeir selir sem leita upp ána skipta þó tugum hvert ár.
Ferðalag upp ána er selunum þó ekki hættulaust því veiðifélagið hefur skyttu á sínum snærum sem stuggar við selunum eða skýtur þá, enda bleikjustofninn í ánni viðkvæm auðlind sem selirnir ásælast.
Heimild: Rúv.is