Fjölmargir hrífast af íslenska þjóðbúningnum. Handverkið að baki búningunum heillar marga og hópur þeirra sem velur að gera sinn eigin búning fer vaxandi. Áhugasamir um þjóðbúningasaum á Eyjafjarðarsvæðinu eiga þess kost að taka þátt í helgarnámskeiðum á Laugarlandi í vetur. Stefnt er að því að fjórar helgar á vetri verði kennsluhelgar. Námskeið í þjóðbúningasaumi frá grunni, þ.e. að sauma peysuföt eða upphlut, er fjórar helgar og því er kjörið að nota tækifærið og koma sér upp búningi með því að taka þátt.

Að þessu sinni verður ein helgi fyrir áramót en þrjár á vorönn. Fyrsta helgin verður 21. – 22. nóvember næstkomandi. Kennt verður laugardag og sunnudag kl. 10-17. Þessir kennslutímar er hugsaðir bæði fyrir þá sem eru að sauma þjóðbúning frá grunni eða að bæta og laga eldri búninga auk þeirra sem vinna að faldbúningum.

Þessar námskeiðshelgar eru samvinnuverkefni sem hófst síðastliðinn vetur á milli Heimilisiðnaðarfélags Íslands og Handraðans. Samstarfið felst í því að kennarar í þjóðbúningasaumi (Oddný Kristjánsdóttir klæðskeri) og baldýringu (Inda Dan Benjamínsdóttir) koma norður og kenna áhugasömum en Handraðinn sér um útvegun húsnæðis og fleira. Upphaf þessa samvinnuverkefnis má rekja til áhugahóps um gerð faldbúningsins fyrir norðan. Hluti hópsins er langt komin með gerð slíks búnings á meðan aðrir eru rétt lagðir af stað, en slíkt verkefni tekur nokkur ár.

Til þess að af þessum námskeiðshelgum verði þarf að vera nægileg þátttaka og því er mikilvægt að þeir sem ætla að taka þátt skrái sig í s. 551-5500 eða á netfangið skoli@heimilisidnadur.is.


Heimild: esveit.is