Sauðfjárbanni aflétt á Siglufirði

Í 22 ár hefur sauðfjárhald verið bannað á Siglufirði. Banninu var aflétt í sumar, áhugamönnum um sauðfjárrækt til mikillar gleði.

Frændurnir Óðinn Rögnvaldsson og Haraldur Björnsson hafa í sjö ár barist fyrir því að fá að halda sauðfé á Siglufirði en bæjaryfirvöld bönnuðu sauðfjárhald árið 1989.

„Það voru ákveðnir menn hér í bæjarstjórninni sem ekki voru hlynntir sauðkindinni og þeir bönnuðu það og það er búið að taka öll þessi ár að fá að byrja aftur með sauðfé á Siglufirði,“ sagði Óðinn Rögnvaldsson, sauðfjárbóndi á Siglufirði.

Það fer ekkert á milli mála að sauðfjárrækt er hafin á Siglufirði á nýjan leik. Fyrir utan eina fjárhús bæjarins, sem er reyndar enn í smíðum, blaktir fáni með sauðkindinni.

Fjárhúsið sem stendur við götuna Lambafen hefur fengið nafnið Bóhem og eru 50 kindur nú þegar komnar í hús hjá þeim frændum. Þar eru þær aldar á brauði og öðru góðgæti og una glaðar við sitt alveg eins og þessir einu sauðfjárbændur Siglufjarðar.

„Þetta er bara okkar áhugamál eins og sumir hafa áhuga á hestum þá er þetta bara okkar áhugamál númer eitt tvö og þrjú,“ sagði Óðinn að lokum.

Rúv.is greinir frá