Samsýning eldri listamanna í Fjallabyggð – Sólstafir – verður formlega opnuð á þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 13:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, II hæð,  Siglufirði.  Sýningin mun standa til 27. júní 2021 og verður opin daglega milli klukkan 13:00 og 16:00. Klukkan 14.00 á opnunardaginn 17. júní mun Páll Helgason lesa upp eigin ljóð.

Hugleiðingar sýningarstjóra Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur.

Menningarflóra Fjallabyggðar er einstök á landsvísu hvort sem litið er til fortíðar eða líðandi stundar og má þar þakka því fólki sem staðið hefur vaktina í áratugi. Í listum er gjarnan litið til þess kraftmikla starfs sem ungt eða miðaldra fólk sinnir, en eldri listamenn búa yfir reynslu, næmi og yfirsýn sem skilar sér í verkin á eldri árum og er vert að skoða. Listasagan hefur einmitt kennt okkur að hver listamaður gengur í gegnum nokkur tímabil á starfsferlinum og er það oft á síðari árum sem hugmyndafræði og efnistök kristallast. Það vakti því áhuga minn að velja saman níu einstaklinga í Fjallabyggð til samsýningar og er þó listinn ekki tæmdur. Þeir listamenn sem sýna að þessu sinni eiga það sameiginlegt að vinna af ástríðu að list sinni og eiga flestir sýningarferil að baki.  Sumir eru skólagengnir en aðrir átt þann draum ævilangt að sinna listinni en ekki haft tök á vegna annarrar vinnu. Er það sannur heiður að fá að setja upp sýningu með verkum þessa kraftmikla hóps og sannarlega tímabært að beina sjónum að sköpunarkraftinum sem þar kemur  fram.

Þátttakendur eru:

Örlygur Kristfinnsson
Kristján Jóhannsson
Pia Rakel Sverrisdóttir
Arnfinna Björnsdóttir
Bjarni Þorgeirsson
Ingi Þ. Reyndal
Kolbrún Símonardóttir
Kristín Andersen
Páll Helgason