Bónus var með lægsta verðið í 42 af 72 tilvikum þegar verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á jólamat í 7 matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu á mánudaginn. Kannað var verð á algengum matvörum sem verða á borðum landsmanna yfir jólahátíðina.

Samkaup-Úrval var með hæsta verðið í 35 tilvikum af 72, en Hagkaup var með hæsta verðið í 33 tilvikum. Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar í verslunum Hagkaups eða í 69 tilvikum af 72 og í Fjarðarkaupum 68. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Nóatúni eða aðeins 52 af 72 og í Bónus 53.

Könnunin var gerð á sama tíma í verslununum Bónus Kringlunni, Krónunni Granda, Nettó Breiðholti, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Samkaupum Úrval Hafnarfirði, Hagkaupum Skeifunni og Nóatúni í Nóatúni. Verslunin Kostur og verslunin Víðir neituðu þátttöku í könnuninni.