Í gær skrifuðu Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, og Jón Hjaltason sagnfræðingur undir samning vegna ritunar sögu Einingar-Iðju. Stefnt er að bókin verði gefin út á fyrri parti ársins 2018, en Jón á að skila lokauppkasti að handriti að fullbúnu riti þann 1. október 2017. Þetta kemur fram á www.ein.is .

Á aðalfundi félagsins sem fram fór í apríl var samþykkt með miklum meirihluta fundarmanna að fela stjórn félagsins að láta skrifa sögu verkalýðs/verkalýðsfélaga á félagssvæðinu er standa Einingu-Iðju frá upphafi til vorra daga. Stjórnin ákvað eftir miklar umræður að leita til tveggja sagnfræðinga og varð Jón að lokum fyrir valinu. Jón hefur skrifað og komið að útgáfu fjölda ritverka, þar má m.a. nefna Sögu Akureyrar sem gefin var út í fimm bindum, Sögu Útgerðarfélags Akureyringa og Sögu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna.

Saga Einingar-Iðju á að vera yfirlit um sögu félagsins og forverum þess og þau málefni sem það hefur einkum unnið að frá árinu 1894 til og með árinu 2004. Fjallað verður um tilurð, þróun og skipulag Einingar-Iðju og forvera félagsins en megináhersla verður lögð á lífskjör fólks, lífshætti, viðhorf og félagslegar aðstæður, og hvernig þessir þættir tengjast starfsemi og baráttu Einingar-Iðju og verkalýðshreyfingarinnar.

Ef einhver býr yfir minningarbrotum eða á myndir sem tengjast sögunni þá er sá hinn sami hvattur til að hafa samband við Jón. Hægt er að senda tölvupóst á netfangið jonhjalta@simnet.is eða hringja í síma 862 6515.

Félagið hefur skipað ritnefnd verksins. Í henni sitja Bragi V. Bergmann, almannatengill og ráðgjafi og er hann formaður nefndarinnar, Þorsteinn E. Arnórsson og Sigrún Lárusdóttir, starfsmenn Einingar-Iðju.

Eining Iðja