Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar verður 60 ára á næsta ári en  hann var stofnaður árið 1955 á hóteli í Ólafsfirði þann 17. apríl 1955. Stofnfélagar voru 18 talsins. Rótarýklúbburinn á Siglufirði var hins vegar stofnaður árið 1937.

Sr. Ingólfur Þorvaldsson, þáverandi sóknarprestur á Ólafsfirði, beitti sér manna mest fyrir stofnun klúbbsins, en áhugamenn heima fyrir nutu forsjár félaga í Rótarýklúbbi Siglufjarðar, sérstaklega Péturs Björnssonar og Jóhanns Jóhannssonar, svo að einhverjir séu nefndir.  Fyrstu stjórn klúbbsins mynduðu þeir sr. Ingólfur Þorvaldsson forseti, Jóhann J. Kristjánsson héraðslæknir ritari, Guðmundur Jóhannsson bæjargjaldkeri gjaldkeri, Sigurður Guðjónsson bæjarfógeti stallari og Magnús Gamalíelsson útgerðarmaður varaforseti.

Allt frá stofnun hefur klúbburinn gegnt miklu hlutverki í menningar- og félagslífi í Ólafsfirði og gerir það enn. Meðal verkefna hafa verið sumarferðir fyrir aldraða og skemmtikvöld að vetri til, sem notið hafa mikilla vinsælda.  Klúbburinn hefur einnig á sviði samfélagsþjónustu sinnt verkefnum, sem tengjast börnum og unglingum, t. d. með verðlaunaveitingum til nemenda skólanna.

Olafsfjordur_haus_temp