Nú í vikunni er væntanleg í bókabúðir ný skáldsaga eftir Ragnar Jónasson, Rof, sakamálasaga sem gerist í Héðinsfirði. Verður útgáfunni fagnað í Héðinsfirði næstkomandi laugardag klukkan 14.00, þar sem höfundur kynnir bókina og eru allir velkomnir. Eins og kunnugt er fór Héðinsfjörður í eyði árið 1951, en í nýju bókinni er sögð saga tvennra ungra hjóna sem fluttu í fjörðinn árið 1955 og tóku sér búsetu við austanvert Héðinsfjarðarvatn. Dvölin fær snöggan endi þegar önnur kvennanna deyr með dularfullum hætti – og hálfri öld síðar finnst gömul ljósmynd sem bendir til þess að hjónin hafi ekki verið ein í firðinum.
Við ritun sögunnar leitaði Ragnar meðal annars fanga í bókum afa síns heitins, Þ. Ragnars Jónassonar fræðimanns og bæjargjaldkera á Siglufirði, í ritröðinni Úr Siglufjarðarbyggðum, til þess að gefa lesendum sem besta innsýn inn í lífið í þessum afskekkta firði á árum áður, en bókin er tileinkuð minningu Þ. Ragnars og konu hans, Guðrúnar Reykdal.
Innsent efni: Jónas Ragnarsson