Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Akureyrarbæjar á fyrri hluta ársins 2022 var neikvæð um 1.138,7 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 1.227,8 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma samstæðunnar á fyrri hluta ársins er því nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir eða sem nemur 89 milljónum króna.

Rekstrarniðurstaða A-hluta á fyrri hluta ársins var neikvæð um 1.063 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 1.368 milljónir á tímabilinu. Afkoma A-hluta er því 306 milljónum króna betri en áætlun gerði ráð fyrir.

Tekjur samstæðunnar voru samtals 14.216 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að tekjur yrðu 13.276 milljónir. Skatttekjur voru 7.472 milljónir króna sem er 468 milljónum umfram áætlun. Tekjur frá Jöfnunarsjóði voru 1.725 milljónir króna sem er 94 milljónum yfir áætlun. Aðrar tekjur voru 5.018 milljónir króna sem er 376 milljónum umfram áætlun. Tekjur tímabilsins eru því samtals 939 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir á tímabilinu.

Rekstrargjöld samstæðunnar fyrir afskriftir voru samtals 12.701 milljón króna sem er 148 milljónum yfir áætlun. Laun og launatengd gjöld voru 8.143 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 8.101 milljón króna. Annar rekstrarkostnaður var 4.045 milljónir króna sem er 101 milljón undir áætlun. Fjármagnsgjöld, nettó, voru 1.582 milljónir króna sem er 723 milljónum króna umfram áætlun. Hærri fjármagnskostnaður á rætur sínar að rekja til verulega hærri verðbólgu á tímabilinu en áætlun gerði ráð fyrir. Afskriftir voru 1.064 milljónir króna samanborið við 1.071 milljón króna í áætlun.

Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar var veltufé frá rekstri 1.537 milljónir króna eða 10,81% af tekjum. Fjárfestingahreyfingar voru 1.285 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 624 milljónir. Afborganir lána voru 622 milljónir króna. Handbært fé var 3.533 milljón króna í lok júní.

Fastafjármunir samstæðunnar voru 56.526 milljónir króna og veltufjármunir 7.552 milljónir. Eignir voru samtals 64.079 milljónir króna samanborið við 62.774 milljónir í árslok 2021. Eigið fé var 25.492 milljónir króna en var 26.637 milljónir króna um síðustu áramót. Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 32.033 milljónir en voru 31.202 milljónir í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir voru 6.554 milljónir króna en voru 4.935 milljónir um sl. áramót.

Veltufjárhlutfall var 1,15 á móti 1,34 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 39,8% í lok júní.

 

Texti: akureyri.is