Reitir er alþjóðlegt samvinnuverkefni sem fer fram á Siglufirði 20. – 31. júlí 2012 á vegum Alþýðuhússins þar í bæ í samstarfi við ýmsa hópa og einstaklinga, íslenska og erlenda. Þátttakendur vinna með bæjaryfirvöldum og íbúum á Siglufirði að tímabundnum skapandi útfærslum á sameiginlegum svæðum innan bæjarins – en samfélagsaðstæður á Siglufirði er grundvöllur sem verkefnið byggir á.

Markmið Reita er að móta varanlegann grundvöll fyrir skapandi fólk til að nota þekkingu sína og reynslu í beinu samstarfi við bæjarbúa. Mikil áhersla er lögð á fjölbreyttni starfsgreina innan hópsins og skapandi hugsun sem hráefni í tilraunakennda hugmynd að almenningsrými.

Fjöldi erlendra þátttakenda verður á bilinu 20 til 25 en reiknað er með 11 íslenskum þátttakendum. Hópurinn samanstendur annars vegar af atvinnumönnum í listum og faglærðum hönnuðum og hins vegar sérfræðingum í félagsvísindum og raungreinum. Með fagurfræði, aðferðafræði, og sérstaka eiginleika staðarins í huga mun hópurinn kynnast bænum í heimsóknum og smiðjum á vinnustöðum bæjarins fyrstu dagana en sú reynsla mun gagnast sem innblástur og mikilvæg tenging við menningarlíf og sérstöðu Siglufjarðar.

Föstudaginn 27. júlí verður formleg opnun á verkum þátttakenda og kynning á Reitum en Alþýðuhúsið í bænum mun hýsa þátttakendur og þjóna sem vinnustofa og verkstæði.

Þátttakendur koma víða að, allt frá Kína til nágranna okkar í Skandinavíu og reynsla þeirra og þekking er jafn fjölbreytt. Þar má finna grafíska hönnuði, landslagsarkitekta, listamenn, tónlistarmenn, tölvugúrúa, þjóðfélagsfræðinga, þýðendur og heimspekinga svo e-ð sé nefnt. Allir hafa það sameiginlegt að vera skapandi og karftmiklir einstaklingar sem staðsetja iðju sína í félagslegu samhengi útfrá mismunandi hugmyndum um rými.

Texti og heimild: Fjallabyggd.is