Rauðkumenn hafa standsett Rauðkubíó í Bláahúsinu. Fyrsta sýningin mun hefjast föstudaginn 7. október.
Kvikmyndin Eldfjall verður sýnd á sérstakri heiðurssýningu á Siglufirði þann 7. október. Það er Siglfirðingurinn Theodór Júlíusson sem fer með eitt aðalhlutverkið í myndinni ásamt Margréti Helgu Jóhannsdóttur. Myndin er þroskasaga Hannesar, 67 ára manns, sem er að komast á eftirlaun og þarf að horfast í augu við fortíðina og glíma við erfiðleika nútímans.
Myndin hefur verið sýnd á stórum kvikmyndahátíðum erlendis og má þar nefna Cannes, RIFF, Karlovy Vary og Toronto International Film Festival og nú nýverið var hún kosin framlag Íslands til forvals Óskarsverðlaunanna. Fimm erlendar myndir verða valdar úr þeim flokki til þess að keppa um titilinn „besta kvikmyndin með erlendu tali“ á Óskarshátíðinni í Hollywood í febrúar.