Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samvinnu við Sveitarfélagið Skagafjörð og Kaupfélag Skagfirðinga efnir til samkeppni, Ræsingu Skagafjarðar, um góðar viðskiptahugmyndir í Skagafirði, þar sem einstaklingum, hópum og fyrirtækjum er boðið að sækja um þátttöku í verkefninu.
Þátttakendur fá 10 vikur til að vinna viðskiptaáætlun fyrir verkefnin sín en á þeim tíma fá aðstandendur verkefnanna fræðslu og mikinn stuðning verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar auk fleirum við gerð viðskiptaáætlunarinnar og hugsanlega við vöruþróun og frumgerðasmíði.
Boðið verður m.a. upp á námskeið við gerð viðskiptaáætlana.
Allir geta sótt um þátttöku í verkefninu. Verkefnið leggur áherslur á viðskiptahugmyndir sem;
- Eru atvinnuskapandi á svæðinu
- Eru nýsköpun á svæðinu á einn eða annan hátt
- Auka framboð á atvinnu fyrir fólk með háskólamenntun
- Sem eru ekki í beinni samkeppni við önnur fyrirtæki á svæðinu
- Með einstakling eða teymi bak við hugmyndina sem er hæft og tilbúið að vinna að hugmyndinni
- Eru tæknilega framkvæmanlegar á þessum tímapunkti
- Hafa raunverulegan markhóp sem hægt er að sækja á, innanlands eða erlendis
Dómnefnd skipuð fulltrúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Kaupfélags Skagfirðinga og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands taka ákvörðun um hvort og þá hvaða verkefni fá viðurkenningu. Dómnefnd getur hafnað öllum umsóknum og valið að; auglýsa verkefnið upp á nýtt, fela verkefnisstjóra að vinna með umsækjendum við að bæta umsóknir eða hvetja til samstarfs einstaklinga, fyrirtækja eða hópa til að styrkja umsóknirnar og verkefnin.
Dómnefnd mun m.a. meta verkefni út frá nýsköpun á svæðinu, atvinnusköpun, viðskiptaáætluninni sjálfri, raunhæfni verkefnis og líkum á því að verkefninu verði hrint í framkvæmd.
Umsókn og nánari upplýsingar um Ræsingu er að finna hér
Ratsjáin er spennandi nýsköpunar- og þróunarverkefni ætlað stjórnendum ferðaþjónustufyrirtækja til að efla þekkingu og hæfni þeirra á sviði fyrirtækjareksturs. Verkefninu er ætlað að ná til þeirra fyrirtækja sem eru að gera góða hluti í dag en vilja efla sig enn meira í ýmsum rekstrarþáttum.
Með þátttöku sinni fá stjórnendur þjálfun og þekkingu sem snýr að betri miðlun upplýsinga, aukinni hæfni í greiningu á rekstri fyrirtækisins og úrbótaskýrslu með tillögum að nauðsynlegum aðgerðum. Stefnt er að því að gæði, fagmennska og ábyrg stjórnun verði hluti af stefnumótunarferli hvers fyrirtækis.
Kynningarfundur um Ræsingu Skagafjarðar og Ratsjána verður 29. janúar á Kaffi Krók kl. 17:00. Boðið verður upp á súpu og brauð.
Umsóknarfrestur í bæði verkefnin er til og með 3. febrúar 2019.