RARIK mun frá og með 1. nóvember 2024 hækka verðskrá fyrir dreifingu raforku ásamt verðskrá fyrir tengigjöld rafmagns. Báðar verðskrár hækka um 8% í öllum gjaldaliðum að undanskildum þjónustugjöldum sem haldast óbreytt.

Athygli er vakin á því að aðeins er um að ræða hækkun á taxta fyrir dreifingu rafmagns en ekki flutning sem er í höndum Landsnets. Heildaráhrif á flutnings- og dreifikostnað til viðskiptavina eru þar af leiðandi lægri en 8%, eða 5% í þéttbýli og 7% í dreifbýli, ef ekki er tekið tillit til dreifbýlisframlags.

Nú er í skoðun hvernig dreifbýliframlag breytist en sú breyting er háð fjárlögum fyrir árið 2025. Breytist dreifbýlisframlag ekki munu heildargreiðslur viðskiptavina vegna flutnings- og dreifingar í dreifbýli hækka meira en sem nemur hækkun RARIK að þessu sinni.

Breytingin er fyrst og fremst tilkomin vegna hækkunar á dreifitöpum og lægri framlegðar vegna ótryggrar orku. Eftir útboð á dreiftöpum er ljóst að kostnaður RARIK vegna þeirra mun hækka um a.m.k. 300 m.kr. árið 2025 borið saman við árið 2024. Enn fremur er ekki gert ráð fyrir að ótrygg orka verði í boði á árinu 2025, frekar en árið 2024, þar sem allar líkur eru á að hún verði áfram skert. Það jafngildir um 320 m.kr. lægri tekjum borið saman við árið 2023.