Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar í Ólafsfirði fékk þann heiður að fá ramp númer 550 í verkefninu ,,Römpum upp Ísland“. Vígsla rampsins fór fram í dag, miðvikudaginn 31. maí við Íþróttamiðstöðina. Við vígsluna sagði Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri Fjallabyggðar nokkur orð og þakkað Haraldi Þorleifssyni og hans teymi fyrir frábært framtak.
Nokkrar eldhressar sundkonur, sem voru á leið í síðasta sundleikfimitíma vetrarins tóku þátt í vígslunni og voru þær að vonum ánægðar með rampinn og að Fjallabyggð sé að hefja þá vinnu að bæta enn frekar aðgengi að sundlauginni en þegar hefur verið farið í endurnýjun á búningsklefum og sturtum og lagfæringar á heitum pottum sundlaugarsvæðisins.
Römpum upp Ísland
,,Römpum upp Ísland“ er verkefni sem miðað að því að setja upp 1500 rampa á næstu 4 árum um land allt. Stofnaður var sjóður með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og aðila sem munu standa straum af kostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu. Framlag ríkisins nemur 200 milljónum kr. á tímabilinu. Álíka upphæð mun renna inn í verkefnið frá einkaaðilum og sveitarfélögum.
Með römpunum er öllum gert kleift að komast á þægilegan hátt inn á veitingastaði og verslanir á landinu öllu. Verkefnið verður framkvæmt í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga og skipulagsyfirvalda.
Haraldur Þorleifsson er hvatamaður verkefnisins.
Texti: Fjallabyggð.is