Á undanförnum tveimur árum hefur SÍMEY annast verkefnastjórn við uppsetningu tveggja rafrænna skóla, annars vegar hjá Sæplasti á Dalvík, Sæplastskólinn, og nú hefur verið opnaður rafrænn skóli fyrir starfsfólk velferðarsviðs Akureyrarbæjar.
Vinna við rafrænan skóla velferðarsviðs hófst fyrir tæpum tveimur árum. Starfsemin er fjölþætt og umfangsmikil enda eru um þrjú hundruð starfsmenn á velferðarsviðinu hjá Akureyrarbæ. Undir sviðið heyra t.d. málaflokkar eins og þjónusta við börn og aldraða, málefni fatlaðra, félagsþjónusta og fleira.
Í hinum nýja rafræna skóla eru nú þegar aðgengileg fimm námskeið – um þjónandi leiðsögn, valdeflingu, óhefðbundnar tjáskiptaleiðir, heilabilun og fræðsla fyrir nýja starfsmenn Akureyrarbæjar.
Námsefnið, sem er af ýmsum toga, vann starfsfólk velferðarsviðs í samstarfi við SÍMEY sem jafnframt aðstoðaði við vinnslu námsefnisins og uppsetningu og að gera skólann aðgengilegan fyrir notendur.
Eins og með Sæplastskólann var rafrænn skóli velferðarsviðs settur upp í kerfislausninni Teachable.