Kristján Möller svaraði Umhverfisráðherra þann 14. nóv 2011 svo hljóðandi:

“Hæstv. forseti. Ég vil þakka bæði fyrirspyrjanda og ráðherra fyrir þessi svör. Ég vil leggja áherslu á að framkvæmdum við upptökumannvirki í Fífladölum norður á Siglufirði verði flýtt sem allra mest vegna þess, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að þær geta haft áhrif á þau stóru og miklu áform sem eru í gangi hvað varðar hótelbyggingu við smábátahöfnina á Siglufirði, ákaflega metnaðarfull áform. Ég segi þetta, virðulegi forseti, vegna þess að það er auðvitað ákaflega mikilvægt að eftir að svo stórri framkvæmd er lokið sem Héðinsfjarðargöng eru, sem hafa jafnmikil og jákvæð áhrif á sveitarfélagið og samfélögin við utanverðan Eyjafjörð, er ákaflega mikilvægt að ríkið standi sig hvað það varðar að þessi vá sé minnkuð og upptökumannvirki sett upp þannig að það verði ekki til að tefja framkvæmdir.

Jafnframt vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Hvað líður því að farið verði í hættumat á skíðasvæðum á landinu? Mér hefur alltaf fundist að skíðasvæðin séu svolítið utan við þessi áform öllsömul (Forseti hringir.) og það er auðvitað mjög hættulegt vegna þess að þar safnast saman fjöldi fólks.”