Heimir Sverrisson hefur verið ráðinn tímabundið í stöðu yfirhafnarvarðar Fjallabyggðarhafna. Átta umsóknir bárust um starfið sem auglýst var þann 18. september síðastliðinn.

Heimir er með BSc í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og með 30 tonna skipstjórnarréttindi og STCW 10 A-VI/1.

Heimir er fæddur og uppalinn á Siglufirði en hefur verið búsettur á Ólafsfirði sl. 6 ár. Frá unga aldri hefur Heimir haft áhuga og tengst störfum í sjávarútvegi, hvort sem er á landi eða sjó og hefur starfað sem sjómaður um árabil.

Undanfarin ár hefur Heimir starfað á sjó sem vinnslustjóri hjá Deutsche Fischfang Union. Þar hefur hlutverk hans um borð m.a. verið stjórnun vakta, þjálfun nýliða, þátttaka í úrbótum vinnsluferla og gæðastjórnun ásamt því að vinna almenn sjómannsstörf.

Heimir mun hefja störf 1. nóvember nk. og bjóðum við hann velkominn til starfa.

Texti og mynd: Fjallabyggð.is