Skarphéðinn Þórsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar, sem var auglýst laust til umsóknar 16. nóvember síðastliðinn. Átta umsóknir bárust um starfið. Skarphéðinn mun hefja störf í byrjun næsta árs og tekur við af Hauki Sigurðssyni sem lætur af störfum eftir 29 ára farsælt starf.

Skarphéðinn er með BA próf í stjórnmálafræði með viðskiptafræði sem aukagrein þar sem sérstök áhersla var lögð á bókhald og rekstrarhagfræði. Í stjórnmálafræðinni tók hann m.a. námskeið í opinberri stjórnsýslu. Skarphéðinn býr yfir mikilli þjónustulund frá fyrri störfum sínum þar sem hann segir færni í mannlegum samskiptum ofar öllu og segir að sem stjórnandi vilji hann leggja mikið upp úr því að veita starfsmönnum stuðning í starfi.

Skarphéðinn er nýlega fluttur til Fjallabyggðar ásamt fjölskyldu sinni eftir fimm ára búsetu í Ástralíu þar sem hann sinnti m.a. stjórnunarstöðu á tveimur hótelum. Hann er vanur fjárhagsuppgjörum og bókhaldi ásamt skýrslugerð. Hann hefur mjög góða tölvu- og upplýsingatækniþekkingu sem hefur m.a. nýst honum í að hanna sjálfvirka verkferla og uppgjörskerfi sem léttu verulega dagleg störf fyrrum undirmanna hans. Fjölskylda Skarphéðins rekur nú gistihúsið Soffia‘s house á Siglufirði.

Heimild: Fjallabyggð.is